Nýjast á Local Suðurnes

Bæjaryfirvöld líta málið alvarlegum augum – Álag var á strætó vegna hælisleitenda

Bæjaryfirvöld líta á mál sem upp kom í gær, þegar börn vorur áreitt af hælisleitendum í almenningsvagni, alvarlegum augum. Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri Umhverfissviðs Reykjanesbæjar, segist þó bíða svara frá lögreglu og Stætó vegna málsins.

“Ég er að viða að mér upplýsingum um málið frá lögreglu og strætó. Eina sem ég hef eru umræður á samfélagsmiðlum í gær. En að sjálfsögðu lítum við þetta grafalvarlegum augum.” Segir Guðlaugur Helgi.

Aðspurður um hvort til standi að auka öryggi þeirra sem nýta sér þjónustu strætó, til dæmis með myndavélabúnaði, segir Guðlaugur Helgi að vel geti verið að farið verði út í það, en þau mál eru í skoðun og ekki á áætlun í nánustu framtíð.

Þá segir Guðlaugur Helgi að atvik eins og það sem kom upp í gær hafi ekki komið upp áður, en þó hafi verið töluvert álag á strætó frá Ásbrú á tímabili þar sem hælisleitendur notuðu samgöngumátann á skólatíma, en að þau mál hafi verið leyst í samstarfi við Útlendingastofnun.

“Það var á tímabili mikið álag á strætó frá Ásbrú vegna hælisleitenda sem voru að nota strætó á sama tíma og skólabörn og var ekki pláss fyrir, við báðum Útlendingastofnun að biðja þá að gera það ekki og það gekk vel.” Sagði Guðlaugur Helgi.