Nýjast á Local Suðurnes

Óánægja með slátt á opnum svæðum

Íbúar í Reykjanesbæ eru ekki allir par sáttir við vinnubrögð verktaks sem hefur unnið við slátt á grasi á opnum svæðum í sveitarfélaginu það sem af er sumri, en töluverðar umræður hafa skapast um vinnubrögðin í Facebook-hópum íbúa Reykjanesbæjar og Innri-Njarðvíkur um helgina. Í báðum hópum má sjá myndir af vinnubrögðum fyrirtækisins.

Sláttur á opnum svæðum var boðinn út í Reykjanesbæ fyrir tveimur árum og bauð fyrirtækið Garðlist ehf. lægst í tveimur útboðum, annars vegar fyrir Keflavíkurhverfi og hins vegar fyrir Njarðvíkurhverfi. Tilboð fyrirtækisins hljóðuðu samtals upp á rúmar 35 milljónir króna. Það var Ríkiskaup sem sá um framkvæmd útboðanna fyrir hönd Reykjanesbæjar.

Svipuð mál hafa komið upp þau tvö ár sem fyrirtækið hefur unnið að slætti í sveitarfélaginu, en síðasta sumar voru málin meðal annars rædd á sérstökum auka bæjarráðsfundi, eftir kvartanir frá íbúum. Áður hafa verið birtar fréttir af svipuðum toga, eins og þegar íbúar í efri hverfum Keflavíkur tóku sig til og mættu með sláttuvélar á það svæði sem fyrirtækið sá um og reyndu að ganga í störf verktakans.