Nýjast á Local Suðurnes

Söfnun Keflvíkinga gekk vel – Sleppa við nektarhlaup

Söfnun Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur á Karólínafund gekk vel, en á þriðju milljón króna söfnuðust í gegnum vefsíðuna.

Ýmislegt var í boði fyrir þá sem lögðu verkefninu lið, til að mynda bolir, plaggöt og ársmiðar. Þá var mögulegt að kaupa matarboð fyrir allt að 10 manns á eigin heimili, en innifalið í því er meðal annars veislustjórn á heimsmælikvarða í umsjá “sérfræðinganna” Sævars Sævars og Jonna en auk þeirra verður ein keflvísk körfuboltagoðsögn hið minnsta. Kokkur kvöldsins verður engin annar enn Örn “soho” Garðarsson. Þessi pakki seldist að sjálfsögðu snemma í ferlinu.

Keflvíkingar reyndu að bæta í söfnunina undir lokin með því að lofa nektarhlaupi nokkurra stjórnarmanna gegn sölu á nokkur hundruð sýndarmiðum, en takmarkið þar náðist ekki.