Nýjast á Local Suðurnes

Unnu saman við að króa stúlku af í strætó – Hafa áður viðhaft svipaða hegðun

Óskað var eftir aðstoð lögreglu um kl. 16 í gærdag að strætisvagnastöð við Krossmóa í Reykanesbæ vegna manns sem hefði leitað á unga stúlku í strætisvagni. Nokkrir unglingar voru í vagninum sem höfðu orðið vitni að þessari ósæmilegu hegðun mannsins.

Lögreglan hafði upp á þeim grunaða sem reyndist vera jafnaldri stúlkunnar, 14 ára gamall drengur sem hafði verið í vagninum ásamt öðrum dreng á svipuðu reki. Munu drengirnir hafa haft ákveðna samvinnu við að króa stúlkuna af í sæti sínu en aðeins annar þeirra áreitt hana. Þá mun drengurinn hafa slegið til og kastað flösku í dreng sem hafði afskipti af honum vegna málsins.

Drengurinn var færður á lögreglustöð þar sem rætt var við hann að fulltrúa barnaverndarnefndar viðstöddum.

Í tengslum við málið bárust lögreglu þær upplýsingar að síðastliðinn mánudag hefði hinn drengurinn, sá sem ekki hafði sig í frammi í þessu tilviki, viðhaft svipaða hegðun í strætisvagni gagnvart annarri stúlku.

Drengirnir eru börn og ósakhæfir vegna aldurs og verður því ekki aðhafst frekar í málum þeirra af hálfu lögreglu. Þeir voru hælisleitendur hér á landi en munu hafa farið af landi brott í nótt.