Nýjast á Local Suðurnes

Fullur á færibandi þáði gistingu í fangaklefa

Lögreglan á Suðurnesjum þurfti að sinna óvenju mörgum verkefnum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í vikunni. Óskað var aðstoðar hennar vegna tvegga manna sem fengu ekki að fara í flug vegna ástands síns. Voru þeir afar háværir og æstir þegar lögreglumenn bar að garði en róuðust þegar rætt var við þá.

Annar aðili, sem taldi sig vera á leið úr landi, sat öfurölvi á færibandi í brottfararsal þegar lögreglumenn komu á vettvang. Honum var boðin gisting í fangaklefa sem hann þáði.

Þriðji einstaklingurinn, sem vísað var frá flugi vegna ástands síns, hafði meðal annars boðið starfsmanni í flugstöðinni að koma í slagsmál við sig af tilefnislausu. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð.

Loks var tilkynnt um þrjá menn sem voru með læti í innritun þar sem einum þeirra var synjað um flug því hann var ekki með vegabréf meðferðis.

 

Þá voru þrír einstaklingar stöðvaðir í flugstöðinni með fölsuð skilríki. Einn þeirra framvísaði bresku vegabréfi og í ljós kom við nánari skoðun að það var í eigu annars manns. Hinir tveir framvísuðu grunnfölsuðum vegabréfum. Málin eru komin í hefðbundið ferli.