Nýjast á Local Suðurnes

Endaði á toppnum eftir glæfraakstur á Reykjanesbraut

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Mikil mildi þótti að ekki fór verr þegar erlendur ferðamaður ók á 100 km. hraða inn í hringtorgið við Stekk á Reykjanesbraut, þar sem hámarkshraði er 70 km. á klukkustund. Afleiðingarnar voru þær að bifreiðin fór tvær veltur og endaði á toppnum inni á hringtorginu. Fjórir farþegar voru í bifreiðinni og voru þrír þeirra fluttir með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þeir reyndust ekki vera slasaðir en höfðu fengið skrámur við óhappið. Skráningarnúmerið var tekið af bifreiðinni þar sem hún reyndist ónýt eftir veltuna og var hún fjarlægð af vettvangi með dráttarbifreið.

Þá voru nokkrir ökumenn kærðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Sá sem hraðast ók mældist á 121 km. hraða þar sem hámarkshraði er 90 km. á klukkustund.  Jafnframt voru þrír ökumenn stöðvaðir vegna vímuefnaaksturs.  Borgari hafði stöðvað akstur eins þeirra, sem var á ferðinni á Vatnsleysuströnd, þegar lögreglu bar að garði. Sýnatökur á lögreglustöð staðfestu neyslu ökumannsins á metamfetamíni.