Fundu fíkniefni á víð og dreif um íbúðarhúsnæði
Lögreglan á Suðurnesjum haldlagði umtalsvert magn af fíkniefnum í húsleit sem gerð var, að fenginni heimild, í íbúðarhúsnæði í umdæminu nýverið. Var þar einkum um að ræða amfetamín sem lögreglumenn fundu víða í húsnæðinu. Þrír karlmenn voru handteknir og færðir á lögreglustöð. Einn þeirra játaði að eiga hluta efnanna sem fundust og jafnfram að hafa selt fíkniefni. Við öryggisleit á honum fannst svo efni sem hann sagði vera amfetamín.
Þá framvísaði gestur sem var í húsnæðinu, þegar lögreglu bar að garði, amfetamíni og kannabisefnum.
Í öðru óskyldu máli fundu lögreglumenn við húsleit glerkrukku með kannabisefnum í þvottahúsi. Játaði einn þriggja manna sem búa í íbúðinni eign sína á efninu.