Nýjast á Local Suðurnes

Ungur Njarðvíkingur keppti til úrslita á Íslandsmeistaramóti í skák

Nemandi úr Njarðvíkurskóla, Sólon Siguringason í 5. ÁB hefur lagt stund á skák frá 5 ára aldri og unnið mörg mót. Hann keppti á á Íslandsmeistaramóti í Rimaskóla síðustu helgi og þar tefldi hann úrslitaskák um Íslandsmeistaratitil 10 ára drengja og þar var hann líka að keppa um sæti til að komast fyrir Íslands hönd á Norðurlandamót drengja sem haldið er í Svíþjóð árið 2016.

Sólon tapaði skákinni og lenti í þriðja sæti í flokknum sem er frábær árangur hjá honum. Framundan er stórt Jólamót í Reykjanesbæ. Undanfarin 3 ár hefur Samsuð og Krakkaskák ásamt veglegum stuðningi Nettó haldið mót fyrir krakkana og í ár mun Skáksamband Íslands taka þátt í að halda mótið. Það er aldrei að vita nema fleiri nemendur frá Njarðvíkurskóla eigi eftir að taka þátt í þessum mótum þegar þau hafa fengið þjálfun í skáktímum.

Í haust byrjaði markviss skákkennsla í Njarðvíkurskóla í 5. og 6. bekk. Siguringi Sigurjónsson, kennari hjá Krakkaskák, sér um kennsluna sem er á stundaskrá nemenda á móti sundtímum. Einnig sér Siguringi um skákstöð í fjölgreindavali í 1.-4. bekk sem er í fyrstu tveimur tímunum á föstudögum. Kennslan er að ganga mjög vel en það tekur nokkur skólaár að koma af stað þeirri stemmningu sem býr til afreks krakka í skák og vonandi mun það verða framtíðin á Suðurnesjum að krakkar í öllum skólum fái tækifæri til að þjálfa íþróttina, segir á heimasíðu Njarðvíkurskóla.