Nýjast á Local Suðurnes

Tjónið vegna óveðursins einna mest á Reykjanesi

Tjón vegna óveðusins sem gekk yfir landið á dögunum varð einna mest á Reykjanesi. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV, en þar var stuðst við upplýsingar frá tryggingafélögunum.

Í Reykjanesbæ olli veðrið miklu tjóni, meðal annars flettist malbik af Ægisgötu þegar sjóvarnargarður gaf sig á löngum kafla og gríðarstórir grjóthnullungar gengu á land. Gatan er nánast ónýt og segir Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar, að enn frekari skemmdir hafi komið í ljós á sjóvörnunum. Svonefndur Skessuhellir er stórskemmdur, sem og lýsing á göngustíg og stígurinn sjálfur. Málið er nú komið til Vegagerðarinnar og hefur Reykjanesbær óskað eftir fundi með þeim til að kostnaðarmeta viðgerðirnar, sem hlaupa á milljónum.

Þá varð golfvöllurinn í Grindavík fyrir miklum skemmdum þegar grjót gekk langt inn á völlinn.

Tjónið í Garði var einnig mikið, en þar flæddi sjór inn í kjallara einbýlishúss auk þess sem flæddi inn í nokkur fyrirtæki við höfnina.