Nýjast á Local Suðurnes

Leitarkafarar þjálfaðir á Suðurnesjum

Um síðustu helgu luku þrír kafarar frá Björgunarsveitinni Suðurnes fagnámskeiði í leitarköfun en það er sex daga námskeið sem kennt var yfir tvær helgar og veitir námskeiðið réttindi til að starfa sem leitarkafari. Köfunarhópur Björgunarsveitarinnar Suðurnes á því nú alls fimm menntaða leitarkafara en ekki eingöngu karlmenn því sveitin eignaðist sinn fyrsta kvenkyns leitarkafara á þessu námskeiði.

kofun2

Samhliða leitarköfunarnámskeiðinu eru einnig þjálfaðir línumenn og áttum við fulltrúa þar frá sveitinni ásamt því að kafarar spreyttu sig á línumerkjunum. Starf línumanns er mjög mikilvægt þar sem línumaðurinn stjórnar kafaranum sem er neðansjávar og fara öll samskipti þeirra á milli með ákveðnum merkjum í gegnum línu.

Haldnar voru æfingar bæði í sjó og á landi og var því oft mikið um að vera í Njarðvíkurhöfn og voru verkefnin bæði stór og smá er kafarar þurftu að leysa neðansjávar. Þegar köfunarhópur er kallaður út skiptir viðbragðstíminn miklu máli og eru því leitarkafarar ávallt með sinn búnað kláran svo viðbragðstíminn sé sem styðstur. Einnig voru fulltrúar frá sjóflokki sveitarinnar með á námskeiðinu því þeir gegna miklu hlutverki sem öryggistæki fyrir kafara svo og sem aðstoð við leit og björgun.