Grindavíkurstúlkur komnar í bikarúrslitin – Keflavík úr leik

Grindavík er komið í úrslit Powerade-bikarsins eftir öruggan sigur á Stjörnunni, 77-57, í Mustad-höllinni í Grindavík í kvöld.
Grindavíkurstúlkur byrjuðu vel og unnu fyrsta leikhlutann 23-15. Í öðrum leikhluta komu þær enn sterkari til leiks og var staðan í hálfleik 49-24.
Í síðari hálfleik var þetta svo engin spurning þrátt fyrir að Stjörnustúlkur hafi aðeins náð að klóra í bakkann og lokatölur 77-57.
Whitney Michelle Frazier skoraði 25 stig, Hrund SKúladóttir skoraði 15 og Ingunn Embla Kristínardóttir gerði 14 stig.
Keflavíkurstúlkur aftur á móti úr leik eftir tap gegn Snæfelli, 64-74, þrátt fyrir að hafa komið mun sterkari til leiks í TM-Höllinni og verið yfir í leikhléi, 33-31. Snæfellingar reyndust svo vera sterkari í síðari hálfleik og höfðu tíu stiga sigur.
Melissa Zorning var stigahæst í liði Keflavíkur með 21 stig.