Ólíklegt að gjósi í nóvember
Ólíklegt er talið að eldgos hefjist á Reykjanesskaga í nóvember. Þetta byggja sérfræðingar Veðurstofu á jarðskjálftavirkni og kvikusöfnun undanfarið.
Jarðskjálftavirkni heldur áfram í Sundhnúksgígaröðinni en er fremur lítil. Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram. Ekki er þó útlit fyrir að kvikumagnið verði komið í 23 milljónir rúmmetra fyrr en undir lok mánaðar. Það eru talin lágmarksmörk til þess að eldgos hefjist.