Isavia fær 15 milljarða – Skapar fjölda nýrra starfa

Gengið var frá 15 milljarða króna hlutafjáraukningu á hluthafafundi Isavia sem haldinn var þann 12. janúar síðastliðinn. Hlutafjáraukningunni er ætlað að mæta rekstrartapi vegna Covid-19 og gerir hún félaginu kleift að hefja vinnu við uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli á ný.
Ljóst er að ákvörðunin um að auka hlutafé í Isavia skapar fjölda nýrra starfa á framkvæmdatímanum, þar með talið strax á þessu ári, að því er félagið greinir frá í tilkynningu.
Fyrirhuguðum framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli er ætlað að styrkja samkeppnishæfni flugvallarins og tengistöðvarinnar með því að bæta þjónustu við viðskiptavini, bæta aðstöðu flugvéla og farþega, stytta afgreiðslutíma og auka þannig afköst og skilvirkni hans. Áætlanir gera ráð fyrir að þeim framkvæmdum, sem fyrirhugað er að ráðast í að svo stöddu verði að fullu lokið árið 2025, segir einnig í tilkynningunni.