Nýjast á Local Suðurnes

Aukið hlutverk Duushúsa, Hljómahallar og Víkingaheima í ferðaþjónustu

Fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2016 er í fullum gangi hjá Reykjanesbæ eins og flestum sveitarfélögum landsins og keppast hin ýmsu svið og ráð sveitarfélagsins við að minna á mikilvægi sitt.

Menningarráð Reykjanesbæjar er þar engin undantekning og á fundi sínum þann 11. september síðastliðinn fór sviðsstjóri yfir samþykkt um fjárhagsáætlunarferli Reykjanesbæjar sem samþykkt var í 25. júní s.l. í bæjarráði þar sem fram kemur hvert hlutverk menningarráðs er í gerð fjárhagsáætlunar.

Ráðið leggur áherslu á að við næstu fjárhagsáætlun verði haft í huga að nægilegt fjármagn fáist til að hægt verði að vinna eftir þeirri Framtíðarsýn sem kynnt var ráðinu 20. ágúst s.l. Áhersla er lögð á að menningarstofnanir bæjarins,  s.s. söfnin, geti  sinnt sínum lögbundnu hlutverkum, segir í fundargerð ráðsins frá 11. september.

Ráðið leggur einnig áherslu á að bæjarráð hafi í huga aukið hlutverk stofnana í ferðaþjónustu við gerð fjárhagsáætlunar og þá sérstaklega Duushúsa, Hljómahallar og Víkingaheima.

Ráðið vill einnig minna á aukið hlutverk þessara stofnana í ferðaþjónustu og er þá einkum vísað til Hljómahallar, Víkingaheima og Duushúsa.  Jafnframt verði hugað að áframhaldandi endurbyggingu sögulegs húsnæðis í bænum s.s. Gömlu búðar og Fischershúss og byrjað verði að huga að hvað gera skuli við Vélasal á Hafnargötu 2, segir ennfremur í fundargerð ráðsins.