Nýjast á Local Suðurnes

Hljómsveitin Valdimar heldur tónleika í Hljómahöll

Hljómsveitin Valdimar heldur tónleika í Stapa í Hljómahöll þann 30. desember. Á síðasta ári fyllti hljómsveitin Stapann, og það tvisvar – og komust færri að en vildu.

Hljómsveitin Valdimar var stofnuð árið 2009 þegar Valdimar Guðmundsson og Ásgeir Aðalsteinsson byrjuðu að semja lög heima hjá Ásgeiri. Fljótlega varð til 6 manna hljómsveit sem sló óvænt í gegn bæði hjá almenningi og gagnrýnendum. Plötur sveitarinnar eru orðnar þrjár talsins og hafa þær allar notið hylli áheyrenda sem gagnrýnenda.

Tónlistin þeirra byggist upp á mikilli dýnamík allt frá rólegum melódíum, upp í drífandi, orkumikla og epíska kafla þar sem hljómsveitin spilar á fullu blasti. Þetta gerir lifandi flutning þeirra að ógleymanlegri upplifun. Tónlistarstefnu þeirra er best að lýsa sem electro indie blöndu með rætur í Americana tónlist, þó svo aðdáendum finnist það einfaldlega ekki skipta máli að skilgreina tónlist sveitarinnar.