Ruslaráð skipað í Innri-Njarðvík – Gera hverfið fínt fyrir sumarið
Íbúar í Innri-Njarðvíkurhverfi Reykjanesbæjar eru orðnir langþreyttir á sóðaskap í hverfinu og hafa sett á laggirnar ruslaráð sem mun standa fyrir svokölluðum “rusladegi” laugardaginn 28. maí næstkomandi. Þá stefna íbúar á að koma saman og týna rusl ásamt því að ditta að ýmsu sem þarfnast lagfæringar.
Ruslaráðið hefur auglýst rusladaginn á Facebook og þar hafa þegar um 70 manns lýst yfir áhuga á að taka þátt eða tilkynnt þátttöku. Á síðunni segir meðal annars:
Laugardaginn 28. maí næstkomandi verður rusladagur í Innri-Njarðvík frá kl. 12:00 til 17:00. Þá munu vonandi sem flestir íbúar Innri-Njarðvíkur koma saman og týna rusl um allt hverfið og grilla saman pulsur við Akurskóla að verki loknu. Þeir sem taka þátt koma með sinn eigin ruslapoka, pylsur á grillið og auðvitað góða skapið 🙂
Reykjanesbær mun taka þátt í átaki íbúanna með því að útvega ruslapoka ásamt flutningi og förgun á rusli. Á meðfylgjandi mynd má sjá að hverfinu hefur verið skipt upp í svæði sem skulu hreinsuð.