Nýjast á Local Suðurnes

Um 170 smáskjálftar á einni klukkustund

Mynd: Visit Reykjanes

Um 170 jarðskjálftar urðu í jarðskjálftahviðu um og eftir miðnætti í nótt. Hviðan varð rétt austur af Sýlingarfelli á kvikuganginum og stóð yfir í rúma klukkustund.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar, en þar segir að flestir skjálftanna hafi verið smáskjálftar, undir tveimur að stærð. Einn skjálfti mældist 3,0 að stærð á fimm kílómetra dýpi rétt norður af Hagafelli. Sá skjálfti varð kl. 0:26.

Jarðskjálftahviður hafa verið viðvarandi síðan landris hófst 27. október við Þorbjörn, þó að nokkuð rólegt hafi verið síðustu daga, segir í tilkynningunni.

Engar vísbendingar eru um gosóróa að svo stöddu.