Nýjast á Local Suðurnes

Þriggja milljarða króna gjaldþrot dótturfélags Atafls

Þrotabú Hafhúsa ehf., dótturfélags Atafls, sem áður hét Keflavíkurverktakar hf., hefur verið gert upp, en félagið sem áður hét Athús ehf. átti meðal annars tugi íbúða við Norðurbakka 1-3 í Hafnarfirði og fjölda raðhúsa og lóða við Byggakur á Arnarneslandi í Garðabæ.

Alls fengust 1,2 milljarðar eða 38,78% greiddar upp í veðkröfur, en þær námu alls 3,2 milljörðum króna. Hins vegar fékk ekkert upp í almennar kröfur, en þær námu rúmum 24 milljónum króna.

Forsaga málsins er sú að félagið skuldaði Kaupþingi 2,7 milljarða króna við fall bankans, en bankinn fór fram á að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta í apríl 2012. Héraðsdómur Reykjaness hafnaði hins vegar þeirri beiðni í mars 2013 og var það ekki fyrr en með úrskurði Hæstaréttar sem félagið var keyrt í þrot.

Verktakafyrirtækið Atafl varð gjaldþrota árið 2010.