Nýjast á Local Suðurnes

Sérfræðingur í málefnum flóttafólks heimsótti Reykjanesbæ

Dr. Angelea Panos sérfræðingur í málefnum flóttafólks var með fræðsluerindi í Reykjanesbær á fimmtudag og föstudag. Hún hitti starfsfólk sveitarfélagsins sem vinnur í málaflokknum og kom m.a inn á hvernig hægt er að styrkja enn frekar það góða starf sem unnið er í sveitarfélaginu.

Velferðarráðuneytið í samstarfi við Fulbright stofnunina á Íslandi sótti um að fá til landsins sérfræðing í málefnum flóttafólks sem gæti verið með fræðslu fyrir fagfólk sem ynni náið með flóttafólki. Lögð var áhersla á að fá sérfræðing sem hefur sérhæft sig í málefnum barna og fjölskyldna sem hafa neyðst til þess að flýja heimaland sitt. Umsóknin var samþykkt og mun Dr. Angelea Panos ferðast um landið í fjórar vikur með fræðslu til starfsfólks sveitarfélaga.

Dr. Angelea Panos er taugasérfræðingur og félagsráðgjafi að mennt með yfir 30 ára reynslu í klínískri vinnu, rannsóknum og kennslu. Hún kennir félagsfræði, sálfræði og félagsráðgjöf við Háskólann í Utah í Bandaríkjunum. Dr. Angelea hefur unnið að gerð og innleiðingu framkvæmdaáætlana til að meta og meðhöndla áfallastreitu hjá flóttamönnum. Þá hefur hún veitt stofnunum og ríkisstjórnum víða um heim ráðgjöf í uppbyggingu eða bataáætlun í kjölfar stríðsátaka og náttúruhamfara. Eins hefur dr. Angelea unnið með frjálsum félagasamtökum að málefnum flóttafólks.

Á ferð sinni í Reykjanesbæ hitti Dr. Angelea kennara, félagsráðgjafa, sérfræðinga og leiðbeinendur innan Velferðar- og Fræðslusviðs. Farið var yfir hvernig hægt er að styrkja og byggja upp fjölskyldur sem hafa neyðst til að flýja heimaland sitt, mismunandi uppeldisaðferðir og menningu þjóða. Einnig var farið í vinnu með börnum með áfallastreituröskun og hvernig hægt sé að meta þarfir þeirra. Þá deildi Dr. Angelea vitneskju um hvaða aðferðir innan skólakerfisins hafa virkað vel meðal flóttabarna.