Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær semur við Villiketti

Á föstudag undirrituðu bæjaryfirvöld og Villikettir samning um tilraunaverkefni um að hlúa að villi- og vergangsköttum í landi Reykjanesbæjar og sporna við fjölgun þeirra. Samningurinn er byggður á lögum um velferð dýra.

Samkvæmt lögum 55/2013 um velferð dýra er sveitarfélaginu skylt að taka dýr sem hafa strokið eða sloppið úr haldi og hafa ekki verið handsömuð af umráðamönnum þeirra, í vörslu sína og lesa af einstaklingsmerkjum. Jafntfram að gera ráðstafanir til að hafa uppi á umráðamanni þeirra. Einnig er sveitarfélögum skylt að hafa aðstöðu til að halda slík dýr. Með samningi þessum heimilar Reykjanesbær þjónustuveitanda að framkvæma ofangreindar skyldur sveitafélagsins.

Notuð verðu svokölluð TNR aðferð (Trap-Neuter-Return). Aðferðin felst í því að villi- og vergangskettir eru fangaðir í fellibúr, farið með þá til dýralæknis sem geldir högna og tekur læður úr sambandi. Dýrin fá svo að jafna sig inni í 1-7 sólahringa áður en þeim er sleppt aftur á sinn upprunalega stað. Þjónustuveitanda er heimilt að merkja þau dýr sem handsömuð eru í tengslum við framkvæmd verkefnisins með eyrnamerkingu.