Nýjast á Local Suðurnes

Sala varnarliðseigna – Fermetraverðið um 50 þúsund krónur

Kadeco tilkynni í gær sölu á um 100 þúsund fermetrum af íbúðar- og iðnaðarhúsnæði á Ásbrú til Íslenskra fasteigna ehf. Um er að ræða 470 íbúðir og 28 eignir sem flokkast sem atvinnuhúsnæði. Kaupverðið er 5 milljarðar króna eða rétt um 50 þúsund krónur á fermeter.

Hluti íbúðana 470 er þegar í útleigu, en til stendur að ráðast í endurbætur á þeim íbúðum sem eftir standa og leigja út og er áætlaður kostnaður við þá vinnu um tveir milljarðar króna. Nýstofnað fyrirtæki, Fjárfestingarfélagið Ásbrú ehf. mun halda utan um fjárfestinguna, en ekki stendur til að selja eignir úr pakkanum að sinni samkvæmt frétt Fréttatímans sem fjallar um málið í dag.

Í frétt Fréttatímans er haft eftir Kjartani Eiríkssyni, forstjóra Kadeco að söluferlið hafi verið opið og að enginn annar aðili hafi sýnt áhuga á að kaupa allan eignapakkann.

Kadeco hefur nú selt 93 prósent af því húsnæði sem íslenska ríkið fékk afhent við brottför bandaríska hersins, en um er að ræða tæplega 350.000 fermetra. Heildarsöluverðmæti eignana er 17,6 milljarðar króna eða um 50.000 krónur á fermeter. Til samanburðar má geta þess að algengt fermetraverð á íbúð í fjölbýlishúsi í Reykjanesbæ um þessar mundir er rétt um 170.000 krónur og á atvinnuhúsnæði í þokkalegu standi um 100.000 krónur.