Nýjast á Local Suðurnes

Stopp hingað og ekki lengra! tveggja ára – “Hlusta ekki á þær staðhæfingar að ekki séu til peningar”

Tvö ár eru frá því að Stopp hingað og ekki lengra hópurinn var stofnaður, en hlutverk hans hefur verið að þrýsta á stjórnvöld að halda áfram með framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar. Guðbergur Reynisson, einn af stofnendum hópsins, greinir frá því í pistli á Fésbókarsíðu hópsins að töluvert hafi áunnist á þeim tveimur árum sem hópurinn hefur verið starfandi.

“Síðan þá hefur okkur orðið vel ágengt, tvöföldun á restinni af Reykjanesbraut frá Fitjum uppí Flugstöð Leifs Eiríkssonar komst inn á Samgönguáætlun.

Og til þess að auka öryggi vegfarenda þangað til fengum við í gegn tvö hringtorg við vegamót Aðalgötu og Flugvallavegar og langt er á veg komið veglagning Hafnavegar og tenging hans við hringtorg á Fitjum.

Einnig hefur með samheldni tekist að fá lagfæringar á Grindavíkurvegi og eru þær framkvæmdir komnar vel á veg.” Segir Guðbergur meðal annars í pistli sínum.

Þá segist Guðbergur telja að tekjur af ferðamönnum sem heimsækja landið ættu að duga til að klára framkvæmdir við Reykjanesbraut og vel það.

“Ég hlusta ekki á þær staðhæfingar að ekki séu til peningar því ef maður skoðar fréttir af innkomu vegna þeirra 2,2 milljón ferðamanna sem koma inn í landið og eyddu hér ca 550 milljörðum , þá ætti þessi tæplega 10 Milljarða framkvæmd að steinliggja og þarf ekki einu sinni atkvæðagreiðslu svo nauðsynleg og ódýr er þessi aðgerð.” Segir Guðbergur í pistlinum, sem lesa má í heild sinni hér.