Nýjast á Local Suðurnes

Þingmaður vill nota fjármuni frá Kadeco og Isavia í tvöföldun Reykjanesbrautar

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Suðurkjördæmis vill nýta tekjur af sölu eigna hjá Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, Kadeco, og tekjur af umsvifum Isavia á Keflavíkurflugvelli til uppbyggingar á grunnþjónustu og í uppbyggingu á innviðum á Suðurnesjum. Úrbætur á Reykjanesbraut eru hluti af þeim innviðum sem þarf að bæta strax, segir þingmaðurinn í færslu sem hann birti á Facebook-síðunni Stopp hingað og ekki lengra!

Í grein Vilhjálms kemur fram að fundað hafi verið með forsvarsmönnum sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Isvaia, Kadeco og Samtökum atvinnurekenda á Reykjanesi, í byrjun júnímánaðar og að allir hafi verið sammála um að aðgerða væri þörf á Reykjanesbraut.

Nú síðast í upphafi júnímánaðar áttum við fund með forsvarsmönnum sveitarfélaganna á Suðurnesjum, ISAVIA, KADECO og Samtökum atvinnurekenda á Reykjanesi. Á þeim fundi var farið yfir þau miklu umsvif sem eru nú í uppbyggingu hér á svæðinu og þau tækifæri sem uppbyggingunni fylgja. Þar voru allir sammála um að Reykjanesbrautin væri einn af þeim innviðum sem þyrfti að laga strax og rætt um hvernig leggja mætti áherslu á það. Málið hafði bæði áður og eftir fundinn verið borið undir fjármálaráðuneytið sem handhafa hlutabréfanna í ISAVIA og KADECO annars vegar og undir Innanríkisráðuneytið og Vegagerðina hins vegar. Segir meðal annars í færslu Vilhjálms.

Vilhjálmur segir í svari við fyrirspurn Suðurnes.net, að Umhverfis- og samgöngunefnd hafi skilað inn nefndaráliti við gerð samgönguáætlunar, þar sem nefndin taldi að tvöföldun Reykjanesbrautar hefði átt að vera á núverandi áætlun. Það náðist hinsvegar ekki í gegn, en áætlunin gildir til ársins 2018. Þá segist þingmaðurinn hafa kynnt málið fyrir hinum ýmsu aðilum í stjórnsýslunni.

“Í nefndarálitinu tengdum við það við þá uppbyggingu sem er hjá Isavia og tekjur af sölubeigna hjá Kadeco og áhrifum þróunnarvinnu þess.” Sagði Vilhjálmur.

“Ég er búinn að kynna þessar hugmyndir og setja þær í ýmis ferli sem munu vonandi skila árangri.” Sagði hann.

Þess má geta að Vilhjálmur er eini þingmaðurinn af Suðurnesjum sem á sæti í Umhverfis- og skipulagsnefnd.