Heilsu- og forvarnarvika hefst í Reykjanesbæ í lok september

Vikuna 28. september – 4. október næstkomandi verður heilsu- og forvarnarvika í Reykjanesbæ. Þetta er í áttunda skiptið sem heilsu- og forvarnarvikan er haldin undir kjörorðinu Samvinna-Þátttaka-Árangur.
Vonast er til að fyrirtæki og stofnanir í bænum taki virkan þátt í verkefninu með því að bjóða bæjarbúum upp á heilsutengda viðburði. Skila þarf inn upplýsingum fyrir 21. september nk., segir á heimasíðu Reykjanesbæjar en þar má einnig finna frekari upplýsingar um hvernig taka eigi þátt í heilsu- og forvarnarvikunni.
Markmiðið með heilsu- og forvarnarvikunni er að draga úr þeim áhættuþáttum sem einstaklingar geta staðið frammi fyrir á lífsleiðinni og hlúa að verndandi þáttum með þátttöku allra bæjarbúa.
Að sögn Hafþórs Barða Birgissonar íþrótta- og tómstundarfulltrúa Reykjanesbæjar er vonast til að fyrirtæki og stofnanir taki virkan þátt í verkefninu með fjölbreyttum viðburðum og tilboðum sem höfði til sem flestra. „Allar stofnanir Reykjanesbæjar taka þátt í verkefninu og er það von okkar að sem flest fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og íþrótta-og tómstundafélög í Reykjanesbæ sjái hag sinn í þátttöku verkefnisins.“