Nýjast á Local Suðurnes

Ofursti í kanadíska hernum hljóp á milli Reykjavíkur og Keflavíkur – Safnaði fyrir Umhyggju

Í morgun hljóp Mitchell undirofursti, sem er bæði flugmaður CF-18-orrustuþotu og langhlaupari, 46 kílómetra leið á milli Reykjavíkur og Keflavíkur.

„Hlaupið var býsna erfitt en þetta var samt algerlega einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða fyrir þá sem þurfa á hjálp að halda. Ég er sannfærður um að söfnunarféð renni til einstaklega góðs málefnis en ég er líka vongóður um að þetta framtak verði til að vekja athygli á þeim stuðningi sem Umhyggja getur veitt fjölskyldum sem þurfa á slíku að halda. Það er afar mikilvægt að láta gott af sér leiða og aðstoða þegar maður getur og ég er mjög stoltur af því að hafa fengið tækifæri til þess,“ sagði Mitchell undirofursti, sem lauk hlaupinu á fjórum klukkustundum, þrjátíu mínútum og 33 sekúndum.

Flugsveitin stefndi að því að safna 1.500 kanadískum dollurum (jafnvirði um 114.000 króna) og verður söfnunarféð afhent fulltrúum Umhyggju á föstudaginn, þann 16. júní. Enn er ekki komið í ljós hve mikið hefur safnast en allt bendir til að takmarkið hafi náðst.

Þátttaka kanadísku flugsveitarinnar og orrustuþotnanna í loftrýmisgæsluverkefni Atlantshafsbandalagsins á Íslandi, er liður í Operation REASSURANCE, sem er framlag Kanada til öryggis- og varnaðaraðgerða bandalagsins. Félagar í sveitinni segjast stoltir af því að vinna með Íslendingum, bandamönnum sínum, að því að tryggja öryggi loftrýmisins.