Nýjast á Local Suðurnes

Þetta er ódýrasta einbýlið á Suðurnesjum – Stutt á ströndina og geggjað útsýni!

Fallegt útsýni er helsti kostur ódýrasta einbýlishússins sem auglýst er til sölu á Suðurnesjum. Útsýni er frá eigninni til sjávar, að vita og kirkju auk þess sem einungis fimm mínútna ganga er að strönd. Ásett verð fyrir eignina er 16,5 milljónir króna. Gjöf en ekki gjald eins og staðan er á húsnæðismarkaði.

Eignin, Akurhús 1 í Suðurnesjabæ, samanstendur af forstofu, eldhúsi, borðstofu, stofu, baðherbergi, sjónvarpsholi og tveimur herbergjum. Í fasteignaauglýsingu kemur fram að húsið, sem er um 82 fermetrar að stærð hafi verið byggt árið 1912, en að það hafi verið klætt að utan árið 2007 ásamt því að gluggar og járn á þaki hafi verið endurnýjað og settar fráveitulagnir.

Þá kemur fram að inni í húsinu hafi nánast allt verið hreinsað út. Kjallari er undir eigninni að mestu.  Þá er mögulegur bílskúrsréttur á lóðinni sem er 900 fermetra leigulóð.