Nýjast á Local Suðurnes

Segja meirihluta bæjarráðs setja stein í götu mikilvægra framkvæmda

Meirihluti bæjarráðs Reykjanesbæjar leggur áherslu á að þó framkvæmdir séu við Suðurnesjalínu 2 séu nauðsynlegar þá valdi þær sem minnstum spjöllum og skerði eins takmarkað og unnt er ásýnd og náttúru landsins og mælir sveitarfélagið því með að jarðstrengur verði lagður meðfram Suðurnesjalínu eða meðfram Reykjanesbraut.

Með þessu telja fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarráði að meirihluti bæjarráðs sé að setja stein í götu mikilvægra framkvæmda og tefja þær með bókun sinni. Fulltrúarnir telja að þar sem Reykjanesbær býr við óöryggi í raforkumálum mun töf hafa áhrif á íbúa og fyrirtæki á svæðinu sem og atvinnuuppbyggingu. Þá leggja fulltrúarnir áherslu á alvarleika tafa á framkvæmdinni vegna flugvallarstarfsemi á svæðinu.

Bókanir vegna málsins á síðasta fundi bæjarráðs má sjá í heild sinni hér fyrir neðan:

Meirihluti bæjarráðs leggur fram eftirfarandi bókun:

„Skipulagsstofnun hefur sent Reykjanesbæ beiðni um umsögn vegna frummatsskýrslu um framkvæmd vegna Suðurnesjalínu 2 með bréfi dagsettu 31. maí 2019.
Það er mat meirihluta bæjarráðs Reykjanesbæjar að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni og ekki er gerð athugasemd við þá umhverfisþætti sem matið tekur til eða þá valkosti sem lagt er mat á. Ekki er gerð athugasemd við hvernig staðið er að úrvinnslu úr gögnum til þess að meta umhverfisáhrif og framsetningu í frummatsskýrslu.
Meirihluti bæjarráðs leggur áherslu á að þó framkvæmdir séu nauðsynlegar þá valdi þær sem minnstum spjöllum og skerði eins takmarkað og unnt er ásýnd og náttúru landsins.
Þess vegna mælir sveitarfélagið með valkosti A, jarðstreng meðfram Suðurnesjalínu eða valkosti B, jarðstreng meðfram Reykjanesbraut.“

Friðjón Einarsson, Samfylkingu, Guðbrandur Einarsson, Beinni leið og Jóhann Friðrik Friðriksson, Framsóknarflokki.

Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki tekur undir bókun meirihlutans.

Minnihluti bæjarráðs Margrét Sanders, Sjálfsstæðisflokki og Gunnar Þórarinsson, Frjálsu afli leggja fram eftirfarandi bókun:

„Skipulagsstofnun hefur sent Reykjanesbæ beiðni um umsögn vegna frummatsskýrslu um framkvæmd vegna Suðurnesjalínu 2 með bréfi dagsettu 31. maí 2019.
Undirrituð taka undir bókun meirihluta bæjarráðs Reykjanesbæjar að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni og ekki er gerð athugasemd við þá umhverfisþætti sem matið tekur til eða þá valkosti sem lagt er mat á. Ekki er gerð athugasemd við hvernig staðið er að úrvinnslu úr gögnum til þess að meta umhverfisáhrif og framsetningu í frummatsskýrslu.
Undirrituð undrast bókun meirihluta bæjarráðs sérstaklega í ljósi þess að þegar Landsnet setti í opið umsagnarferli tillögu að kerfisáætlun Landsnets 2018-2027 í samræmi við raforkulög nr. 65/2003 bárust engar athugasemdir. Einnig hefur matsáætlun Landsnets sem er hluti af umhverfismatsferlinu verið samþykkt af Skipulagsstofnun án athugasemda frá Reykjanesbæ og Landsnet ásamt öðrum fagaðilum unnu úr öllum þeim athugasemdum sem bárust þegar kerfisáætlun var í umsagnarferli og var kerfisáætlun Landsnets 2018 – 2027 samþykkt af Orkustofnun í janúar 2019.
Að mati undirritaðra er meirihluti bæjarráðs að setja stein í götu mikilvægra framkvæmda og tefja þær með bókun sinni. Þar sem Reykjanesbær býr við óöryggi í raforkumálum mun töf hafa áhrif á íbúa og fyrirtæki á svæðinu sem og atvinnuuppbyggingu. Undirrituð leggja líka áherslu á alvarleika tafa á framkvæmdinni vegna flugvallarstarfsemi á svæðinu.
Með því að leggja alla Suðurnesjalínu 2 í jörð eins og meirihlutinn er að leggja áherslu á er verið að leggja til kostnaðarauka upp á 2 milljarða sem verður til þess að rafmagnskostnaður heimila og fyrirtækja eykst.
Undirrituð taka undir með meirihluta bæjarráðs um að þó framkvæmdir séu nauðsynlegar þá valdi þær sem minnstum spjöllum og skerði eins takmarkað og unnt er ásýnd og náttúru landsins.“

Margrét A. Sanders, Sjálfstæðisflokki og Gunnar Þórarinsson, Frjálsu afli.