Nýjast á Local Suðurnes

Færni til framtíðar kennd á uppeldisnámskeiði

Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar heitir foreldranámskeið sem fræðslusvið Reykjanesbæjar fer af stað með 20. október. Á námskeiðinu verða kenndar aðferðir til að styrkja hæfni foreldra í að laða fram æskilega hegðun hjá börnum sínum  og fyrirbyggja erfiðleika. Námskeiðið stendur yfir fjóra þriðjudaga kl. 17:00 til 19:00 í Fjölskyldusetrinu við Skólaveg 1. Námskeiðsgjald er 8000 krónur og eru öll námskeiðsgögn innifalin auk Uppeldisbókarinnar. Leiðbeinandi er Guðný Reynisdóttir skólaráðgjafi.

Það vita þeir sem hafa reynt að það er flókið starf að vera uppalandi í nútímaþjóðfélagi. Það sem var árangursríkt hér einu sinni virkar kannski ekki í dag.

Guðný Reynisdóttir skólaráðgjafi segir uppeldi vissulega flókið samspil erfða og umhverfis og að uppeldisskilyrði hafi breyst mikið í tímans rás. „Rannsóknir hafa aukið þekkingu á uppeldi og afleiðingum þess á barnið. Þær  sýna m.a. fram á mikilvægi þess að beita gagnrýnni hugsun í uppeldi barna og að foreldrar séu leiðandi í uppeldi sínu og takist þannig betur upp við að undirbúa börn sín fyrir lífið. Jafnframt þurfa foreldrar að vera samstíga, góðar fyrirmyndir og mynda þannig sterk tengsl við börn sín.“

Að sögn Guðnýjar gefur námskeiði foreldrum tækifæri að læra og kynna sér gagnreyndar og árangursríkar aðferðir við uppeldi barna á aldrinum 0 til 6 ára. „Námskeiðið er fyrir alla foreldra hvort sem þeir þurfa að takast á við áskoranir í uppeldinu eða telja sig góða uppalendur sem vilja verða enn betri. Það er jafnframt mikilvægt fyrir foreldra að vita að þeir standa ekki einir, það eru fjölmargir aðrir sem eru í sömu sporum, þ.e. eru að takast á við erfiða hegðun eða vilja læra nýjar og betri aðferðir í uppeldinu. Námskeið sem þessi gegna því mikilvægu hlutverki í að tengja foreldra saman og hjálpa þeim að læra hvert af öðru.“

Guðný segir mikilvægi góðs uppeldis ekki síst til þess fallið að fyrirbyggja erfiðleika í hegðun og aðlögun, a.m.k. auðveldi það að takast á við erfiðleika sem kunna að koma upp. „Við eigum að setja uppeldi barna okkar í forgang, við eigum að hafa sama metnað til að vera framúrskarandi foreldrar og að verða framúrskarandi í vinnu eða námi. Það er nefnilega risastórt verkefni að ala upp einstakling og er að öllu jöfnu eitt stærsta verkefni sem foreldrar takast á við í lífinu.  Nú er tækifæri til að læra og kynna sér gagnreyndar og árangurríkar uppeldisaðferðir.“

Skráning á námskeiði er hjá þjónustuveri Reykjanesbæjar í síma 421-6700 eða með því að senda tölvupóst á thjoustuver@reykjanesbaer.is