Bókakonfekt Bókasafnsins í kvöld – Jón Kalmann les upp úr nýrri bók sinni
Í kvöld (26.nóvember) verður hið árlega Bókakonfekt Bókasafns Reykjanesbæjar haldið í Ráðhúsinu, Tjarnargötu 12.
Rithöfundarnir Jón Kalman Stefánsson, Árelía Eydís Guðmundsdóttir og Ásmundur Friðriksson lesa upp úr nýjustu bókum sínum. Þau tengjast öll Suðurnesjum á einn eða annan hátt.
Eitthvað á stærð við alheiminn eftir Jón Kalman Stefánsson er framhald ættarsögunnar Fiskarnir hafa enga fætur en sögusvið bókanna teygist frá Norðfirði forðum til Keflavíkur nútímans.
Tapað – fundið er fyrsta skáldsaga Árelíu Eydísar Guðmundsdóttur. Bókin fjallar um lögfræðinginn Höllu Bryndísi sem, á ferð sinni til London, fær ranga ferðatösku við lendingu. Hvað gerir kona með ókunnugan fataskáp þegar mikið liggur við?
Hrekkjalómafélagið: prakkarastrik og púðurkerlingar er 20 ára saga Hrekkjalómafélagsins í Vestmannaeyjum sem Ásmundur Friðriksson rekur. Í bókinni er undirbúningi hrekkjanna lýst, hrekkjunum sjálfum, viðbrögðum og afleiðingum þeirra.
Gestum er boðið upp á jólastemningu með lifandi tónlist frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar auk þess sem boðið verður upp á kaffi og konfekt.
Viðburðurinn er samstarfsverkefni almenningsbókasafnanna á Suðurnesjum og er dagskráin styrkt af Menningarráði Suðurnesja. Aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.