Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjaliðin töpuðu öll í Dominos-deildinni

Tindastóll varð fyrsta liðið til að leggja Keflvíkinga að velli í Dominos-deildinni í körfuknattleik í vetur, leikurinn sem fór fram á Sauðárkróki endaði 97-91 heimamönnum í vil. Jafnræði var með liðunum allan leikinn og var staðan í leikhléi 54-54, eftir að Tindastólsmenn höfðu jafnað með þriggja stiga körfu í blálokin.

Spennan hélt áfram í þriðja leikhluta og áfram var janfræði með liðunum, heimamenn höfðu þó þriggja stiga forystu, 74-71 að honum loknum. Heimamenn náðu svo ágætis tökum á leiknum í fjórða laikhluta þó Keflvíkingar væru aldrei langt unadan og höfðu sigur í baráttuleik 97-91.

Earl Brown Jr. skoraði 27 stig, Valur Orri Valsson 18 og Reggie Dupree 14.

Njarðvíkingar töpuðu í Garðabæ

Það var ekki síðri baráttan í leik Stjörnunnar og Njarðvíkur í Garðabænum, jafnræði var með liðunum allan leikinn þó Stjörnumenn hefðu fumkvæðið, en þeir unnu alla leikhlutana fyrir utan þann þriðja. Stjörnumenn unnu að lokum 10 stiga sigur, 80-70.

Haukur Helgi Pálsson skoraði 20 stig og tók 9 fráköst fyrir Njarðvíkinga, Logi  Gunnarsson skoraði 18 stig og Maciej Stanislav Baginski skoraði 12 og tók 7 fráköst.

Grindvíkingar áttu ekki möguleika gegn KR

Það voru ungir og óreyndir leikmenn beggja liða sem fengu að klára leik Grindavíkur og KR sem fram fór í Grindavík enda ekki mikil spenna í gangi þegar KR-ingar lögðu þá gulklæddu að velli með 20 stiga mun 73-93.

Hjá Grindavík var Wise atkvæðamestur með 21 stig og 10 fráköst. Á eftir honum kom Jóhann með 15 stig og Ómar með 13 stig og 16 fráköst.

Keflvíkingar halda enn toppsætinu í deildinni með 14 stig eftir 8 umferðir, Njarðvíkingar eru í 4. sæti með 10 stig líkt og Stjarna og Haukar. Grindvíkingar eru í 7. sæti með 8 stig.