Nýjast á Local Suðurnes

Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar umfangsmikið barnaníðingsmál

Lögreglan á Suðurnesjum er með umfangsmikið barnaníðingsmál til rannsóknar og hefur meintur gerandi verið í gæsluvarðhaldi síðan í nóvember á síðasta ári. Hluti málsins hefur þegar verið fluttur fyrir Héraðsdómi Reykjaness og er niðurstöðu að vænta úr þeim hluta málsins í næstu viku.

DV greindi frá því í gær að hinn grunaði heiti Brynjar Joensen Creed. Brynjar sætir ákæru fyrir brot gegn fimm stúlkum á grunnskólaaldri. Meint brot hans gegn stúlkunum sem ákært er fyrir eru sautján.

Þolendur eru af Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu og er það ástæða þess að málið er í höndum lögreglunnar á Suðurnesjum, auk þess sem sum brotanna voru framin á Suðurnesjasvæðinu.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ekki viljað tjá sig um málið við fjölmiðla, en bæði DV og Vísir greina frá því að þeir hafi heimildir fyrir því að fleiri mál tengd Brynjari séu til rannsóknar.