Bæjarlistamaður Grindavíkur 2016 gaf Miðgarði verðlaunaféð
Helga Kristjánsdóttir listmálari, Bæjarlistamaður Grindavíkur 2016 fékk verðlaunin afhent við setningu Menningarvikunnar í Grindavík. Verðlaunaféð, 300.000 krónur, lét Helga renna til styrktar starfsemi Miðgarðs til minningar um móður sína, Rósu Þorsteinsdóttur ljósmóður.
Helga gat ekki verið viðstödd afhendinguna þar sem hún var stödd erlendis. Æskuvinkona hennar, Kristín Pálsdóttir, tók við verðlaunagripnum fyrir hennar hönd.
Kristín sagði að vinkona sín væri hrærð yfir þessari útnefningu og bað fyrir um bestu kveðjur. Kristín sagði jafnframt að Helga væri góð fyrirmynd fyrir fólk sem léti drauma sína rætast og hennar helsti styrkleiki væri að hún væri óhrædd að prófa nýja hluti. Hér má lesa viðtal við Helgu í tilefni þess að hún var útnefnd Bæjarlistamaður Grindavíkur 2016.
Verðlaunagripinn að þessu sinni hannaði Emil Björnsson glerlistamaður sem býr í Grindavík.
Helga verður með opið hús í vinnustofu sinni að Vörðusundi 1 næsta föstudag og laugardag frá kl. 13:00-18:00 og eru allir velkomnir.