Nýjast á Local Suðurnes

Vilja stemma stigu við tilhæfulausum hælisumsóknum

Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra vill hraða málsmeðferð, til að stemma stigu við tilhæfulausum hælisumsóknum, en alls sóttu 1132 um hæli á Íslandi á síðasta ári, 220% fleiri en árið 2015. Langflestir umsækjendur komu frá Albaníu og Makedóníu og fjölmargir þeirra eru búsettir á Suðurnesjum á meðan á málsmeðferð stendur.

„Við ætlum ekki að láta það átölulaust ef menn ætla að misnota þá velvild sem við viljum sýna og ég held að öll þjóðin vilji sýna stríðshrjáðu fólki, ef menn vilja misnota hana með tilhæfulausum umsóknum um hæli,“ segir Sigríður í viðtali við RÚV.

Lögreglan hafði á dögunum afskipti af nokkrum hælisleitendum sem höfðu samvinnu við að króa stúlku af í sæti sínu í almenningsvagni í Reykjanesbæ, þeir munu einnig hafa slegið til og kastað flösku í dreng sem hafði afskipti af þeim vegna málsins. Þá mun hafa verið töluvert álag á strætó frá Ásbrú á tímabili þar sem hælisleitendur notuðu samgöngumátann á skólatíma.