Nýjast á Local Suðurnes

Kalka komin að þolmörkum – Huga þarf að stækkun

Gríðarleg aukning hefur verið á sorpi til brennslu í Kölku undanfarin ár og er svo komið að brennslustöðin er fullnýtt.  Þrettán ár eru síðan stöðin var tekin í notkun og hefur hún verið í gangi stanslaust í yfir 4400 daga.

Þetta kom fram í ávarpi stjórnarformanns stöðvarinnar á aðalfundi fyrirtækisins sem fram fór á dögunum. Þá kom fram að á síðasta ári þurfti félagið að greiða rúmar 43 milljónir króna fyrir sorpeyðingu vegna úrgangs sem ekki var hægt að brenna í Kölku.

“Það er alveg ljóst að með aukinni fólksfjölgun hér á svæðinu og allri þeirri uppbyggingu sem áætluð er þá líður að því að brennslustöðin verði of lítil og hafi ekki getu til að taka á móti því sorpi sem berst. Því þurfum við að horfa til þess að innan nokkurra ára munum við þurfa að stækka stöðina ef við ætlum að getað tekið á móti öllu þessu rusli. Hvort sem við munum  sameinast Sorpu eða ekki.  Þá þurfum við að skoða stækkun á móttökuhlaðinu ef við ætlum að fara út í frekari flokkun þar sem núverandi plan er orðið eða er að verða of lítið.” Sagði stjórnarformaðurinn Birgir Már Bragason á fundinum.