Vinnumálastofnun aðstoði Reykjanesbæ við að styðja frekar við umsækjendur um alþjóðlega vernd

Unnið er að aðgerðaráætlun um það hvernig hægt sé að styðja frekar við umsækjendur um alþjóðlega vernd í Reykjanesbæ. Áætlunin gengur út á það að vinnumálastofnun geti aðstoðað sveitarfélagið við að sjá um þennan mikla fjölda sem er í bænum.
Þetta kemur fram í máli Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félagsmálaráðherra, í spjalli við mbl.is. Guðmundur Ingi segir að framboð íbúðarhúsnæðis í Reykjanesbæ sé ástæðan fyrir því að hlutfallslega flestar íbúðir hafi verið teknar á leigu af Vinnumálastofnun í því sveitarfélagi en öðrum sveitarfélögum fyrir fólk sem sótt hefur um alþjóðlega vernd.
Hann segir að stefnt sé að því að Vinnumálastofnun veiti aðstoð við að bæta innviðina, þjónustuna og virknina.