Nýjast á Local Suðurnes

Framkvæmd upp á rúman milljarð bíður þess að deiliskipulag verði samþykkt

Stærsti framleiðandi á bleikju í heiminum í dag, Íslandsbleikja, bíður þess að deiliskipulag verði samþykkt vegna stækkunar starfsstöðvar fyrirtækisins á Stað í Grindavík svo hægt sé að hefja framkvæmdir. Kostnaðurinn við stækkunina á Stað fer eftir niðustöðu deiliskipulags, en áætlaður kostnaður við fyrsta áfanga er um 300 milljónir króna og við heildarframkvæmdina rúmur milljarður, fáist tilskilin leyfi.

Fyrirhuguð er stækkun á eldisrými Íslandsbleikju úr 25 þúsund rúmmetrum í 66 þúsund rúmmetra með fjölgun eldiskerja og framleiðsluleyfi á bleikju úr 1600 tonn í 3000 tonn. Heildarframleiðsla fyrirtækisins í dag er 3000 tonn á þremur starfsstöðum, á Stað í Grindavík, á Vatnsleysu á Reykjanesi og í Öxarfirði.

Ármann Halldórsson sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar sagði tímaáætlanir við deiliskipulagsvinnu smærri sveitarfélaga sjaldnast standast en vildi meina að vinna við deiliskipulagið fyrir fiskeldið á Stað hafi ekki tekið langan tíma.

“Get ekki sagt að þetta skipulag hafi tekið mikinn tíma. Það er ekki óeðlilegt að vinnsla við flóknari deiliskipulagsáætlanir taki 1-3 ár. Einnig er vert að benda á að í minni sveitarfélögum fundar bæjarstjórn einungis einu sinni í mánuði og ef maður ber það saman við leiðbeiningarblað Skipulagsstofnunar er ómögulegt að skipulög sem eru mjög einföld taki minni tíma en 6 mánuði eftir að þau hafa verið unnin sem getur tekið 1-2 mánuði fyrir einfaldari skipulög.” Sagði Ármann í svari við fyrirspurn Local Suðurnes.

Tafir vegna athugasemda Umhverfisstofnunar

Hluta af töfunum má rekja til Umhverfisstofnunar en hluti svæðisins nær inn á svæði á náttúruminjaskrá auk þess sem samskipti við ráðuneyti hafa gengið hægt.

“Samskipti hafa gengið hægt við ráðuneytið og Umhverfisstofnun en það kemur ekki á óvart og er algengt að svo sé enda oft flókin skipulagsleg álitefni að ræða um.” Sagði Ármann.

“Þá þarf að fara í aðalskipulagsbreytingu sem var ekki alveg ljóst í byrjun sem gerir það að verkum að við verðum að endurtaka ferlið.” Sagði Ármann.

Vinna við deiliskipulagið hófst í maí 2014 og hefur því staðið yfir í um eitt og hálft ár og frá því í júní á þessu ári hefur málið að mestu verið í höndum Umhverfisstofnunar og ráðuneytis.

“Nú er komið svar frá Umhverfisstofnun og ráðuneytinu og hefur verið tekin ákvörðun um að fara í aðalskipulagsbreytingu og ósk um undanþágu frá fjarlægðamörkum frá sjó verið lagt inn sem er í umfjöllun hjá ráðuneytinu. Þá er ferlið endurtekið.” Sagði Ármann, það er því ljóst að vinna við skipulagið mun taka töluverðan tíma í viðbót.

Íslandsbleikja hefur fullan skilning á töfum 

Íslandsbleikja sem er í eigu útgerðarfyrirtækisins Samherja hefur að sögn Jóns Kjartans Jónssonar framkvæmdastjóra fiskeldis hjá fyrirtækinu fullan skilning á töfunum við gerð skipulagsins.

“Það eru margir aðilar sem koma að deiliskipulagsvinnu.  Við reynum eftir fremsta megni  að vinna með yfirvöldum hverju sinni í því sem við erum að gera og allt  tekur tíma.  Markmiðið er bara að allir hraði sínum hluta eins og kostur  er meira en það er ekki hægt að fara fram á.” Sagði Jón Kjartan í samtali við Local Suðurnes.