Nýjast á Local Suðurnes

Tíu milljarðar króna í framkvæmdir á Reykjanesbraut á árunum 2019-2022

Alls verða tæplega 10 milljarðar króna settar í framkvæmdir við Reykjanesbraut á árunum 2019 – 2022, verði samgönguáætlun til tíu ára samþykkt á alþingi.

Til stendur að hefja framkvæmdir við mislæg gatnamót á mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar fljótlega og í kjölfarið breikka Reykjanesbraut að Hvassahrauni, kostnaðurinn við þessar framkvæmdir er áætlaður um milljarður króna.

Á árunum 2019 – 2022 verða settir 3,5 milljarðar króna í famkvæmdir frá Fitjum að Flugstöð Leifs Eiríkssonar og 5,3 milljarðar króna í framkvæmdir sunnan Hafnarfjarðar. Alls stendur því til að setja 9,8 milljarða króna í framkvæmdir á Reykjanesbraut á næstu árum.

Þá stendur til að ljúka Suðurstrandarvegi norðan Grindavíkur og er kostnaður við það áætlaður um 300 milljónir króna.

Áætlunin gerir ekki ráð fyrir gerð hringtorga við  Aðalgötu og Þjóðbraut, en ráð var gert fyrir þeim framkvæmdum í síðustu útgáfu samgönguáætlunar, sem leggja átti fyrir alþingi.

Hér má sjá áætlunina, eins og hún er núna, í heild sinni.

Samkvæmt upplýsingum Suðurnes.net er enn möguleiki á að áætlunin breytist áður en hún verður tekin fyrir á alþingi.