Nýjast á Local Suðurnes

Íslandsbleikja flytur í Sandgerði – Byggja upp nýja vinnslu af fullkomnustu gerð

Bætt verður við eldiskerum í bleikjueldi Íslandsbleikju í Grindavík og vinnslan mun verða flutt í nýtt fiskvinnsluhús í Sandgerði í haust. Þar eru aðstæður góðar og meiri möguleikar á aukinni framleiðslu, segir Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Íslandsbleikju í samtali við kvotinn.is.

Jón segir að um 20 manns starfi við vinnsluna í Grindavík og mun starfsfólki verða boðið að vinna áfram hjá fyrirtækinu í Sandgerði, enda sé litið á Suðurnesin sem eitt atvinnusvæði.

„Ákveðið hefur verið að færa vinnsluna á bleikjunni frá  Grindavík til Sandgerðis í nýlegt mjög vandað fiskvinnsluhús, sem áður var í eigu fyrirtækis sem hét Marmeti. Við stóðum frammi fyrir miklum endurbótum á því húsnæði sem við erum í í Grindavík samfara aukningu í eldinu.  Við mátum það betri kost að flytja starfsemina yfir í þetta hús í Sandgerði sem gefur okkur möguleika á að þróa vinnsluna enn frekar hjá okkur auk þess sem þar er mjög góður lausfrystir sem er  hjartað í svona húsum. Við teljum að þessi flutningur sé  betri lausn fyrir okkur til framtíðar auk þess sem við höfum ekki möguleika á að stöðva framleiðsluna vegna breytinga vegna skuldbindinga okkar varðandi afhendingar á afurðum allt árið um kring.  Þar má ekkert  stoppa. Það verður svo mjög spennandi að byggja upp nýja vinnslu með okkar fólki, sem við ætlum að hafa af fullkomnustu gerð. Við gerum ráð fyrir því að hefja vinnslu þar í haust.

Um það bil 20 manns vinna við vinnsluna í Grindavík og við bjóðum þeim að koma með okkur. Þetta 20 mínútna akstur á milli og við lítum á þetta sem sama atvinnusvæði og munum flytja fólkið á milli á launum. Við erum með gott starfsfólk, sem margt hefur verið lengi hjá okkur og kann vel við verka. Við viljum gjarnan hafa það með okkur í þessari uppbyggingu sem framundan er,“ segir Jón