Nýjast á Local Suðurnes

Hafa ekki fundið lausnir á umferðaröryggismálum við dansskóla á sex mánuðum

Erfiðlega hefur gengið að finna lausnir á umferðaröryggismálum við húsnæði Dansskólans Danskompaní við Brekkustíg, en erindi skólans vegna þessa hefur verið í vinnslu hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjanesbæjar í tæplega sex mánuði. Mikill fjöldi barna stundar nám við skólann og er þar mikil umferð á álagstímum.

Erindi forsvarsmanna dansskólans sem innihélt tillögur að úrbótum hefur verið í vinnslu hjá Umhverfis- og skipulagssviði frá 5. júní síðastliðnum, en þar á bæ tóku menn heilshugar undir að úrbóta væri þörf og hafa nokkrir starfsmenn sviðsins komið að málinu síðan þá, án þess að lausn hafi fundist.

Nú er svo komið að formanni ráðsins og starfsmönnum umhverfissviðs hefur verið falið að ræða nánar við forsvarsfólk dansskólans, eigenda húsnæðisins og fulltrúa foreldrafélagsins um aðkomu á lóð og mögulegt samkomulag við nágranna um afnot bílastæða.