Nýjast á Local Suðurnes

Einar Þór hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslenska sjávarklasans

Einar Þór Lárusson hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslenska sjávarklasans sem afhent verða við opnun Sjávarútvegssýningarinnar þann 28. september næstkomandi. Einar á langa og merka sögu í nýsköpun tengdri íslenskum matvælaiðnaði og sjávarútvegi.

Þetta kemur fram á vef Grindavíkur.net, en þar segir einnig að Einar hafi eftir hefðbundna skólagöngu starfað hjá niðursuðuverksmiðjunni Ora og síðar numið niðursuðufræði við Norges Hermetikkfagskole í Stavangri í Noregi. Þaðan lá leiðin til Vardö í Norður-Noregi til náms í fisktækni við Statens fagskola for fiskeindustri.

Einar starfaði sem niðursuðufræðingur í Noregi að námi loknu. Eftir 6 ára veru í Noregi sneri hann aftur til Íslands og tók við verksmiðjustjórastöðu hjá nýstofnaðri niðursuðuverksmiðju í Grindavík. Einar rak lagmetisverksmiðju fyrir Fiskanes og síðar Þorbjörn í 10 ár.