Nýjast á Local Suðurnes

Ágætlega orðað bréf dugði ekki til að fá að byggja stærra

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hafnaði á dögunum beiðni byggingarfyrirtækis þess efnis að breyta parhúsi við Furudal í fjögurra húsa raðhús.

Beiðni um breytingar hefur flakkað um stjórnsýslu Reykjanesbæjar, en erindinu var hafnað á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í nóvember síðastliðnum og tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar nokkrum dögum síðar hvar erindinu var vísað aftur til umhverfis- og skipulagsráðs.

Á þeim fundi var lagt er fram bréf frá forsvarsmönnum byggingarfyrirtækisins með ósk um endurskoðun ákvörðunar og undirskriftalista nágranna móttekinn 4. janúar 2021 með áskorun um að ákvörðun ráðsins þann 6. nóvember standi óbreytt.

Umhverfis- og skipulagsráð sér ekki ástæðu til að breyta ákvörðuninni þrátt fyrir ágætlega orðað bréf, eins og það er orðað í fundargerð, þar sem breytingar samræmist ekki götumynd og byggðamynstri. Erindi er því hafnað.