Nýjast á Local Suðurnes

Mögulegt að lífeyrissjóðir fjármagni íbúðakaup Tjarnarverks

Fjöldi verktaka á vegum fyrirtækisins vinnur að lagfæringum

Innri - Njarðvík

Tjarnarverk ehf. keypti sem kunnugt er yfir eitthundrað íbúðir á Suðurnesjum af Íbúðalanásjóði í vor, kaupverðið var ekki gefið upp en samkvæmt fasteignamati er virði íbúðanna rúmega 1.500 milljónir króna. Stundin greindi frá því að íbúðirnar séu veðsettar eignastýringafyrirtækinu Virðingu fyrir tæplega þriðjungi þeirrar upphæðar eða sem nemur 500 milljónum króna.

Gunnhildur Gunnarsdóttir þáverandi forstjóri Íbúðalánasjóðs sagði í svari við fyrirspurn Local Suðurnes í júlí að söluverð eigna Íbúðalánasjóðs væri trúnaðarmál:

“Íbúðalánasjóður getur ekki upplýst um söluverð eigna sem hann hefur selt. Við getum heldur ekki upplýst um fjármögnun viðsemjanda okkar en getum staðfest að ekki var tekið lán hjá Íbúðalánasjóði vegna kaupanna,” sagði Gunnhildur

Það má þó gera ráð fyrir því að töluverður afsláttur hafi verið gefinn og söluverðið sé því langt undir fasteignamati.

Lífeyrissjóðir nota eignastýringafyrirtæki til fjárfestinga

Það þarf ekki að vera að verðbréfafyrirtækið Virðing sem samkvæmt Stundinni fjármagnar íbúðakaup Tjarnarverks ehf. sé að leggja eigið fé í fjármögnunina en fyrirtækið sérhæfir sig meðal annars í eignastýrirngu en fjársterkir aðilar eins og til dæmis lífeyrissjóðir hafa fé í stýringu hjá verðbréfafyrirtækjum og fjárfesta meðal annars í fasteignaverkefnum.

Viðskiptafræðingar sem Local Suðurnes hefur rætt við segja fjármögnun sem fyrirtæki eins og Virðing bjóði uppá geti verið af ýmsum toga. Möguleiki sé á að auk lífeyrissjóða séu það fjársterk fyrirtæki eða jafnvel einstaklingar sem láni til fasteignaverkefna í gegnum eignastýringafyrirtæki.

Kostnaður lántakenda við slíkar lántökur geti verið hár og þó íbúðirnar séu einungis veðsettar fyrir þriðjungi skráðs verðmætis þurfi það ekki að þýða að fyrirtækið hafi mikið svigrúm til að halda leiguverði óbreyttu.

Sá möguleiki er því fyrir hendi að Lífeyrissjóðir landsins standi að fjármögnun Tjarnarverks ehf. við kaup á þeim rúmlega 100 íbúðum sem fyrirtækið rekur á leigumarkaði á Suðurnesjum, það hefur þó ekki fengist staðfest.

Tjarnarverk hefur ekki haft samband við leigjendur

Samskipti fyrirtækisins við viðskiptavini sína hafa verið af skornum skammti síðan fyrirtækið tilkynnti leigjendum um hækkun á leigu með ábyrgðarbréfi dagsettu þann 27. júní, en samkvæmt bréfinu átti nýtt leiguverð að taka gildi þann 1. júlí síðastliðinn.

Leigjendur sem Local Suðurnes hefur haft samband við segjast lítið hafa heyrt frá fyrirtækinu síðan í byrjun júlí, en þó hafa einhverjir fengið staðfest að félagið muni virða þá leigusamninga sem eru í gildi, það er að félagið muni ekki hækka leiguna fyrr en við lok samningstímans – En þá verði leigan hækkuð um þá upphæð sem tilkynnt var um bréflega í lok júní.

Tjarnarverk ehf. á fjölda íbúða við Svölutjörn

Tjarnarverk ehf. á fjölda íbúða við Svölutjörn í Innri Njarðvík

Fjöldi verktaka vinnur að lagfæringum

Íbúðirnar sem Tjarnarverk keypti af Íbúðarlanásjóði voru í misjafnlega góðu ásigkomulagi við afhendingu og töluverður fjöldi íbúða var ekki tilbúinn til útleigu, fyrirtækið þarf því að leggja í töluverðan kostnað við að fullklára íbúðir og í viðhald.

Reynir Kristinson talsmaður Tjarnarverks ehf. sagði í samtali við Local Suðurnes þegar málefni fyrirtækisins voru í hámæli að það væru ýmsar ástæður fyrir hækkuninni:

“Við erum til dæmis orðnir ábyrgir fyrir greiðslu á hita og rafmagni í fjölbýlishúsum, gjöld til sveitarfélagsins hafa hækkað auk þess erum við með fjölda verktaka í vinnu við lagfæringar og standssetningu.”

Aðspurður um hvort verktakar af Suðurnesjum væru í forgangi um vinna á vegum fyrirtækisins sagði hann að  “…Allir verktakarnir koma af Suðurnesjum, píparar, málarar og rafvirkjar. Það kemur enginn úr bænum.”