Nýjast á Local Suðurnes

Telur ráðningarferli nýs bæjarstjóra í Grindavík vera sýndarmennsku

Páll Jóhann Pálsson bæjarfulltrúi B lista Framsóknarflokks í bæjarráði Grindavíkurbæjar telur að meirihluti bæjarstjórnar sveitarfélagsins sé þegar með ákveðinn aðila í huga í starf bæjarstóra og því sé ráðningarferli það sem sett hefur verið í gang sýndarmennska.

Þessu hafna fulltrúar D og G lista, sem skipa meirihluta bæjarstjórnar og segja ásakanirnar ekki eiga við nein rök að styðjast.

Þetta kemur fram í bókun Páls Jóhanns, sem lögð var fram þegar farið var yfir tilboð ráðningarstofa vegna starfsauglýsingarinnar, og svari meirihlutans við henni.

Með ástæðulausri uppsögn núverandi bæjarstjóra sem getur kostað bæjarfélagið allt að 18 milljónum króna hlýtur meirihluti bæjarstjórnar að hafa ákveðinn aðila í huga, því telur fulltrúi framsóknarflokksins að um sýndarmennsku sé að ræða með þessu ráðningarferli og mun ekki taka þátt í því. Segirr Páll Jóhann í bókuninni.

Fulltrúar D og G lista harma afstöðu fulltrúa B lista varðandi ráðningu nýs bæjarstjóra þar sem gefið er í skyn að þegar sé búið að ráðstafa stöðunni. Þær ásakanir eiga ekki við nein rök að styðjast og eru hreinn rógburður. Jafnframt lýsa fulltrúar D og G lista yfir furðu að fulltrúi B lista ætli sér ekki að taka þátt í því faglega ráðningarferli sem framundan er í stöðu bæjarstjóra. Segir í svari meirihluta bæjarráðs.

Formaður bæjarráðs lagði í framhaldinu til að sviðsstjóra verði falið að ganga til samninga við lægstbjóðanda Hagvang, um ráðgjöf við ráðningu bæjarstjóra.