Nýjast á Local Suðurnes

Eftirlýstur kýldi lögreglumann í andlitið

Flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum hefur að undanförnu þurft að hafa afskipti af nokkrum ferðalöngum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna ölvunar og óspekta. Þannig þurftu lögreglumenn að fjarlægja ölvaðan mann úr flugvél en hann hafði verið með læti og dólgshátt um borð. Lögregla tók manninn tali og brást hann þá við með því að kýla lögreglumann í andlitið svo hann datt aftur fyrir sig. Maðurinn var þá handtekinn og færður á lögreglustöð. Hann reyndist vera eftirlýstur.

Annan mann þurfti að taka af flugi, sem var á leið til Stokkhólms, vegna ölvunar og var hann með læti og hótanir við lögreglu.

Í þriðja málinu var um að ræða flugfarþega sem hafði látið ófriðlega í flugi frá Varsjá. Hann hafði drukkið eigið áfengi um borð og ekki farið eftir fyrirmælum flugáhafnar, heldur verið ógnandi í tali. Lögregla fylgdi honum í gegnum flugstöðina og var hann þá orðinn hinn rólegasti og fór sína leið.