Nýjast á Local Suðurnes

Undirrituðu viljayfirlýsingu um hringrásargarð

Á fundi Suðurnesjavettvangs um sjálfbæra framtíð Suðurnesja, skrifuðu sveitastjórar og fyrirtæki á svæðinu undir viljayfirlýsinu um hringrásargarð á Suðurnesjum. Fundurinn fór fram á dögunum í Hljómahöll og voru kynntar niðurstöður tveggja ára vinnu um hvernig efla á atvinnulíf og styrkja innviði Suðurnesjanna í átt að sjálfbærri framtíð.

Suðurnesjavettvangur er samstarf sveitarfélaganna fjögurra á Suðurnesjum, Isavia, Kadeco og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Í viljayfirlýsingunni lýstu aðilar að Suðurnesjavettvanginum og fyrirtæki á svæðinu yfir vilja til þess að vera þátttakendur í þeirri vinnu sem snýr að mótun og þróun hringrásargarðs.

Fram kemur í yfirlýsingunni að Suðurnesin séu frumkvöðlar á Íslandi í mótun hringrásarhugsunar í atvinnulífi og Auðlindagarðurinn í Svartsengi, undir forystu HS Orku, dæmi og fyrirmynd um slíkt. Hugmyndafræðin á bak við garðinn sé í grunninn sú að aðilar leitast við að deila, selja og/eða kaupa aukaafurðir vegna starfsemi sinnar, með það að markmiði að auka árangur í efnahags, umhverfis- og félagslegum málum, sem falli vel inn í stefnu þeirra.

Ásamt fjölmörgum erindum á fundinum voru pallborðsumræður þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, ræddu við Berglindi Kristinsdóttur, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, Önnu Björk Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra Þjónustu- og rekstrarsviðs Isavia, og Pálma Frey Randversson, framkvæmdastjóra Kadeco.

Með þessu er verið að sækja fram, snúa vörn í sókn og efla Suðurnesin í átt að stöðugra atvinnulífi, segir í tilkynningu á vef Reykjanesbæjar.