Nýjast á Local Suðurnes

5 ársverk í stærsta gagnaveri landsins – Notar um 8% af orkuframleiðslu HS Orku

Advania reisti orkufrekasta gagnaver Íslands, Mjölni, í Reykjanesbæ. Gagnaverið er hannað fyrir bitcoin-vinnslu og mun nota um eitt prósent af allri orku í landinu. Starfsemin er fjármögnuð af fyrrum forsætisráðherra Georgíu og einum ríkasta manni heims, þetta kemur fram á vef Stundarinnar.

Bitcoin rafmyntir eru ekki prentaðar. þær koma inn í kerfið með svokallaðri námuvinnslu (e. mining), sem stýrt er af fólki, og í sívaxandi mæli af sérstökum Bitcoin-vinnslustöðvum sem leggja til reiknigetu tölvubúnaðar síns til þess að staðfesta færslur sem hafa átt sér stað með notkun Bitcoin og raða þeim í færsluskrár (e. Blockchain). 21 milljón Bitcoins eru til í heiminum.

Þá kemur einnig fram í grein Stundarinnar að hugbúnaðarfyrirtækið Advania rekur Mjölni sem þjónustar um fimmtán viðskiptavini. BitFury er hinsvegar lang stærsti viðskiptavinur gagnaversins og notar á bilinu 70-80 prósent af orku þess. Heildarafl Mjölnis er um tíu megavött á klukkustund en verður 13 megavött þegar það verður fullklárað í haust eða 113,88 gígavattstundir á ári. Það er 8,4 % af raforkuframleiðslu HS Orku árið 2014; eða um eitt prósent af allri orku í landinu (0,87%).

Starfseminni er haldið í algöru lágmarki í þessu orkufrekasta gagnaveri landsins. Eyjólfur Magnús Kristinsson, framkvæmdastjóri hjá Rekstrarlausnum Advania, segir fyrirtækið ekki vera með neina starfsmenn sem þeir geta „100% eyrnamerkt“ gagnaverinu. Aðspurður um fjölda ársverka segir hann: „Það er smá erfitt að meta. En amk 5 ársverk auk verktaka.“