Nýjast á Local Suðurnes

Hér eru fimm ástæður þess að laun sviðsstjóra voru hækkuð

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti í gær tillögur varðandi kjaramál sviðsstjóra og forstöðumanna hjá sveitarfélaginu og þar með hækkun launa um rúmar 100.000 krónur á mánuði.

Í bókun meirihlutans í bæjarstjórn var málið skýrt og ástæður hækkunarinnar þuldar upp, en þær koma fram í bókun bæjarráðs frá því í lok október sem fylgdi bókun Friðjóns Einarssonar vegna málsins í gær. Bókun bæjarráðs má sjá hér fyrir neðan:

Bæjarráð samþykkir framlagðar tillögur varðandi kjaramál sviðsstjóra og forstöðumanna og formanni falið að ganga frá málinu.

Fulltrúi Miðflokksins lýsti engri skoðun í málinu á þeim fundi. Fundargerðin var síðan samþykkt á bæjarstjórnarfundi þann 5. nóvember síðastliðinn af öllum bæjarfulltrúum, þar með talinn bæjarfulltrúi Miðflokksins.

2. Laun sviðsstjóra voru fyrir endurskoðun kr. 1.298.560 með allri yfirvinnu og að meðtöldum orlofs- og desemberuppbótum. Á Akureyri sem er jafnstórt sveitarfélag eru 9 sviðsstjórar í samanburði við þá 6 yfirmenn sem um ræðir hjá Reykjanesbæ sem fá greitt skv. launakjörum sviðsstjóra. Laun sviðsstjóra á Akureyri eru kr. 1.424.000 og þeir fá síðan greiddar orlofs- og desemberuppbætur.

Í Hafnarfirði eru laun sviðstjóra kr. 1.521.000 og til viðbótar orlofs- og desemberuppbætur. Því er ljóst að sviðsstjórar í Reykjanesbæ eru þrátt fyrir þessa hækkun, lægri en sviðsstjórar þessara sveitarfélaga og reyndar margra annarra. Það má því halda því fram, að í raun sé hér um leiðréttingu að ræða.

3. Umræddir starfsmenn voru ekki teknir með í starfsmat það sem unnið var hjá Reykjanesbæ á síðasta ári og færði starfsfólki Reykjanesbæjar launahækkun sem nam 6% að meðaltali.

4. Umfang sviða Reykjanesbæjar hefur verið að aukast verulega þrátt fyrir að sviðum hafi ekki fjölgað og því hefur álag á umrædda starfsmenn aukist í samræmi við það, án þess að til hafi komið aukagreiðsla vegna yfirvinnu.

5. Í einhverjum tilfellum var það orðið þannig að undirmenn sviðsstjóra voru komnir upp fyrir þá í launum eftir kjarasamningsbundnar hækkanir.

Við teljum að ekki sé á neinn hallað þó að þessi ákvörðun hafi verið tekin og áfram verður markvisst unnið að því að bæta starfsumhverfi starfsfólks Reykjanesbæjar og tryggja samkeppnishæfni sveitarfélagsins.