Nýjast á Local Suðurnes

Stefnir á að koma Fávitum á prent – Hér er hægt að styrkja verkefnið!

Sólborg Guðbrandsdóttir tónlistarkona, fyrirlesari og laganemi stefnir á að gefa út sína fyrstu bók á næstunni og hefur hafið söfnun í því skyni á vef Karolinafund. Bókin mun innihalda mörg hundruð spurningar íslenskra ungmenna sem Sólborg hefur svarað á fyrirlestrum um allt land sem og á Instagram-síðunni Fávitar.

Spurningarnar sem Sólborg hefur fengið og svarað eru af ýmsu tagi, en flestar tengjast fjölbreytileika, kynfæraheilsu, kynlífi og ofbeldi. Í kynningu á verkefninu segir meðal annars að spurningarnar og fjöldi þeirra sýni fram á gífurlega þörf fyrir kyn- og kynjafræðslu, sérstaklega þegar kemur að unglingum, sem virðast hafa margar spurningar en ansi fá svör um þessi málefni.

“Ef þessi bók hefði verið í boði þegar ég sjálf var unglingur hefði það geta sparað mér ansi margar erfiðar tilfinningar og upplifanir.” Segir Sólborg á vef Karolinafund.

Þá segir að Instagram-síðan Fávitar sé átak gegn stafrænu og annars konar kynferðisofbeldi og hafi farið á flug árið 2016. Í upphafi snerist síðan um að varpa ljósi á magn kynferðislegs áreitis á samfélagsmiðlum þar sem Íslendingar á öllum aldri sendu inn sín skjáskot af kynferðisofbeldi á netinu og deildu persónulegum reynslusögum sínum af ofbeldi í þeirra daglega lífi. Í dag er síðan með 27 þúsund fylgjendur og snýst hún að mörgu leyti um að fræða ungmenni um þessi málefni.

Markmiðið er að safna 9.000 evrum sem verða nýttar til að greiða fyrir umbrot, prentun, bókaskrif, teikningar, yfirlestur, útgáfu og dreifingu og hægt er að styðja við bakið á Sólborgu í bókaútgáfunni með ýmsum hætti, en allir sem styrkja verkefnið fá bókina að launum, hið minnsta.