Nýjast á Local Suðurnes

Samfélag í sókn í skóla- og dagvistunarmálum

Íbúafjölgun hefur verið mikil undanfarin ár í Reykjanesbæ sem bendir til þess að hér sé gott að vera. Samfylkingin hefur lagt áherslu á að byggja hér upp fjölskylduvænt samfélag og erum við staðráðin í að halda því starfi áfram.
Börn eiga að búa við góð skilyrði til uppvaxtar og náms og að sama skapi þurfa foreldrar möguleika á þátttöku á vinnumarkaði. Að okkar mati er grundvallaratriði að skóla- og dagvistunarúrræði séu eins og best verður á kosið. Í því felst meðal annars að starfsumhverfi og aðstæður kennara séu í lagi og nærumhverfi barna sé heilbrigt og þroskandi.

Undanfarin ár hefur margt áunnist í þessum málaflokki og nauðsynlegt er að sú vinna haldi áfram.

Leikskólavist fyrir 18 mánaða
Í Reykjanesbæ eru starfræktir 10 leikskólar með mismunandi áherslur sem skapa hverjum skóla sína sérstöðu. Það er yfirleitt talsverð kjarabót fyrir foreldra þegar börn þeirra byrja á leikskóla og því er mikilvægt að tryggja áfram að börn komist á leikskóla við tveggja ára aldur. Við setjum markið enn hærra hjá Samfylkingunni og stefnum að því að börn komist inn á leikskóla við 18 mánaða aldur á kjörtímabilinu.

Með vaxandi íbúafjölda er þörf á fleiri grunnskólum. Grunnur hefur verið lagður að uppbyggingu nýs skóla, Stapaskóla, í Innri-Njarðvík. Skipaður var undirbúningshópur þar sem helstu aðilar skólasamfélagsins áttu fulltrúa, má þar nefna leik- og grunnskólakennara, foreldra og nemendur. Hópurinn skilaði skýrslu í júní 2016 þar sem niðurstaðan var að byggður yrði heildstæður skóli sem yrði allt í senn, leik- og grunnskóli, frístunda- og tónlistarskóli, bókasafn og menningar- og félagsmiðstöð hverfisins. Með þessu hefur verið stigið mikilvægt spor til að bregðast við stækkun bæjarins og mikilli aukningu nemandafjölda. Samfylkingin hefur hug á að fylgja þessum áformum eftir og unnið verði að þessu á vandaðan hátt og hagkvæman máta fyrir bæjarfélagið.

Aukum samverustundirnar
Í flestum sveitarfélögum landsins er skortur á faglærðum kennurum. Reykjanesbær hefur síðastliðin ár reynt að stemma stigu við þessu vandamáli á öllum skólastigum. Fjöldi leiðbeinenda stundar nú nám til kennsluréttinda með hvatningu og styrk frá sveitarfélaginu. Þá er mikilvægt að yngri árgöngum grunnskóla sé gefinn kostur á innihaldsríku frístunda- og tómstundastarfi, sem einkennist af öryggi og fagmennsku. Á stefnuskrá okkar er endurskoðun frístundarskólanna á næsta kjörtímabili og stefnum við að því að börn geti í aukum mæli stundað tómstundir á tíma frístundarskólans og fjölskyldan því aukið samverustundir sínar utan hefðbundins vinnutíma.

Ráðum forvarnafulltrúa
Stoðþjónusta skólanna hefur verið efld með því að auka sálfræðiþjónustu fyrir börn. Bætt var við stöðugildi sálfræðings á síðasta kjörtímabili. Það kemur sér til góða fyrir börn sem áður hefðu þurft að bíða lengur eftir greiningarferli og/eða annarri sálfræðiþjónustu. Samfylkingin telur mikilvægt að þjónusta við börn, foreldra og kennara verði aukin enn frekar og telur brýnt að ráðinn verði forvarnarfulltrúi sem fyrst.

Margt hefur áunnist en við í Samfylkingunni teljum að enn séu sóknarfæri til þess að gera betur.

Sigurrós Antonsdóttir
Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir
Guðrún Ösp Theodórsdóttir
Þórdís Elín Kristinsdóttir
Höfundar skipa allir sæti á lista Samfylkingarinnar og óháðra í Reykjanesbæ