Slasaðir sóttir við gosstöðvarnar – Loka svæðinu ef þörf krefur
Ökklabrotinn maður var sóttur af þyrlu Landhelgisgæslunnar við gosstöðvarnar í Meradölum klukkan hálf tvö í nótt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Samkvæmt lögreglu var mikið um fólk við gosstöðvarnar og ferðamönnum fjölgaði mikið um miðnætti. Í tilkynningunni segir að fleiri ferðamenn hafi þurft á aðstoð að halda vegna meiðsla, en Björgunarsveitin var til taks í gær.
Einnig greindi lögreglan frá því að eitthvað hafi borið af leiðsögumönnum með ferðamenn sem sýndu tilmælum viðbragðsaðila lítinn skilning.
Lögreglan lokar svæðinu ef þörf er á og biðlar til allra göngumanna að taka tillit til leiðbeininga og fyrirmæla frá viðbragðsaðilum.